Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Segl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kútter með gaffalsegl sem stórsegl og tvö framsegl: fokku og genúu.
Segl getur líka verið ábreiðsla eða hlífðardúkur sem gerður er úr segldúk.

Segl er dúkur sem er hluti af seglbúnaði skips. Seglið tekur á sig vind og knýr þannig áfram seglskipið eða verkar sem hjálparsegl til að draga úr veltingi á vélbát. Þegar beitt er upp í vindinn getur seglið virkað eins og lóðréttur vængur. Á seglskútum er kjölur undir skrokknum sem myndar mótvægi við hliðarkraftinn þegar vindurinn kemur í seglið á hlið við bátinn.

Tegundir segla

[breyta | breyta frumkóða]
Slúppa með (1) stórsegl (bermúdasegl) og (2) framsegl (genúasegl).

Segl skiptast gróflega í tvo flokka; stórsegl og framsegl, eftir því hvort þau eru fest upp við mastrið eða framan við það (t.d. á stög). Stórsegl skiptast aftur í þversegl og langsegl eftir því hvort þau liggja þvert á skipið eða langsum eftir því. Með langseglum er auðvelt að stagvenda upp í vindinn og krussa eða slaga á móti vindi, en þversegl eru betri þegar siglt er undan vindi. Framsegl skiptast í stagsegl sem fest eru eftir endilöngu stagi, og belgsegl sem eru hengd framan við mastrið á hornunum.

Stórsegl Framsegl
Þversegl Stagsegl
Langsegl Belgsegl

Hlutar segls

[breyta | breyta frumkóða]
Hlutar gaffalsegls: (1) Framfaldur; (2) Undirfaldur; (3) Afturfaldur; (4) Yfirfaldur; (5) Kverk; (6) Háls; (7) Kló; (8) Hnokki; ...

Hliðar seglsins eru kallaðar „faldur“, „jaðar“, „líg“ eða „lík“. Á langseglum er framfaldurinn sú hlið sem er næst mastrinu og afturfaldurinn á móti, en undirfaldur við bómuna að neðan. Ferhyrnd segl eru líka með yfirfald að ofan. Á þverseglum er framfaldurinn sú hlið sem er kulborðsmegin en afturfaldurinn hléborðsmegin.

Horn segls eru háls (fremra horn að neðan), kverk (fremra horn að ofan) hnokki, pikkur eða veðurkló (aftara horn að ofan á ferhyrndu langsegli) og kló (aftara horn að neðan). Á þverseglum eru ráhnokkar við enda ránnar en neðri hornin heita háls og kló eftir því hvernig seglið snýr við vindi þannig að kulborðshornið heitir háls og hléborðshornið kló.

Dragreipi eða ráseil er fest í kverkina á langseglum eða rána á ráseglum til að draga seglin upp. Skaut eru bönd sem fest eru í aftara horn seglsins til að aka því til eftir vindi. Talað er um fokkuskaut sem stýrir fokku og stórskaut sem stýrir stórsegli. Á langseglum er stórskaut band sem fest er í bómuna aftanverða og stýrir horni seglsins miðað við bátinn. Á bátum með ráseglum getur auk þess verið stillanlegur beitiás til að halda hléborðsskautinu úti. Hálsinn á ráseglum er venjulega festur við borðstokkinn kulborðsmegin.