Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Goðafoss

Hnit: 65°41.04′N 17°32.88′V / 65.68400°N 17.54800°V / 65.68400; -17.54800
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

65°41.04′N 17°32.88′V / 65.68400°N 17.54800°V / 65.68400; -17.54800

Goðafoss
Goðafoss séður frá austurbakkanum
Goðafoss að vetri til

Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Hann er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og fer það nokkuð eftir vatnsmagni árinnar hversu margir þeir eru. Hann er fjölbreytilegur ásýndum eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð og sumum finnst hann ekki síðri yfirlitum í klakaböndum að vetri en í glaðasól að sumri. Goðafoss er 9-17 m hár eftir því hvar mælt er og 30 m breiður. Bárðardalshraun þekur allan botn Bárðardals allt ofan frá Skafeyrum og niður fyrir Þingey. Gljúfrið neðan við Goðafoss er grafið í hraunið. Um það fellur fljótið straumhart og úfið. Skammt neðan við Goðafoss er lágur foss í gljúfrinu sem nefnist Geitafoss. Landið á vesturbakkanum heitir Hrútey. Hún afmarkast af Hrúteyjarkvísl, sem greinist frá fljótinu ofan við Goðafoss en sameinast því aftur alllangt neðan við foss. Fosshóll er á bakkanum austan árinnar. Þar er búskapur, verslun og veitingarekstur. Goðafoss er með frægustu fossum á Íslandi og þangað kemur fjöldi ferðafólks til að skoða og dást að náttúrufegurðinni sem þar getur að líta. Fossinn var friðlýstur sem nátturuvætti árið 2020 en árin á undan höfðu farið fram miklar endurbætur á svæðinu. [1]

Þjóðsaga tengir Goðafoss kristnitökunni árið 1000. Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði bjó á Ljósavatni ekki langt frá fossinum. Íslendingabók Ara fróða segir frá því hvernig Þorgeiri var sem lögsögumanni falið það erfiða hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna. Það var þá sem hann lagðist undir feld og lét ekki á sér kræla fyrr en daginn eftir. Þá kallar hann menn til Lögbergs og segir það stríða gegn almanna hag “ef menn skyldu eigi hafa allir lög ein á landi hér”.

Þorgeir varaði mjög við trúardeilum og vildi miðla málum. Ari segir svo að hann hafi fengið hvora tveggja til að gangast inn á að allir skyldu ein lög hafa þau sem hann réði upp að segja. Hann kvað svo upp dóm sinn og mælt var í lögum að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka. Komið var til móts við heiðna menn með nokkrum frávikum frá kristnum sið, til dæmis að blóta mætti á laun. Þorgeir hafði verið sjálfur heiðinn fram að þessu.

Þjóðsagan segir að Þorgeir hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn þegar hann kom heim af þinginu til staðfestingar því að hann hefði tekið nýjan sið og þannig hafi fossinn fengið nafn sitt. Þessi frásögn er þó hvergi skráð í fornum ritum en kemur fyrst fram á prenti í Danmörku á síðari hluta 19. aldar. Ýmsar aðrar skýringar hafa verið gefnar fyrir örnefninu Goðafossi en hvað sem þeim líður hefur þessi frásögn öðlast fastan sess í sagnageymdinni og er tekin sem sögulegur sannleikur þótt hún sé í raun seinni alda tilbúningur. Á steindum glugga í Akureyrarkirkju er teikning sem vísar til þessarar sögu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Goðafoss friðlýsturRúv, skoðað 11. júní 2020
  • Ari fróði Þorgilsson. Íslendingabók
  • Jóhann Skaftason 1969. Suður-Þingeyjarsýsla vestan Skjálfandafljóts og Fljótsheiðar. Árbók FÍ 1969, 1-167.
  • Sigurður Þórarinsson 1978. Fossar á Íslandi. Náttúruverndarráð, 44 bls.
  • Svavar Sigmundsson. (2015, 29. júní). Er það rétt að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi hent goðum í Goðafoss? Vísindavefurinn. Retrieved from http://visindavefur.is/svar.php?id=70316