Samuel Pepys
Samuel Pepys (23. febrúar 1633 – 26. maí 1703) var enskur embættismaður í flotastjórninni og þingmaður sem er aðallega þekktur fyrir dagbók sem hann hélt í tæpan áratug, frá 1660 til 1669. Dagbókin er ein af merkustu heimildum sem til eru um Stúart-endurreisnina og lýsir persónulegri reynslu Pepys af stóratburðum eins og Lundúnaplágunni, öðru stríði Englands og Hollands og Lundúnabrunanum.
Pepys var af borgaralegum ættum í London en reis til metorða vegna stjórnunarhæfileika og dugnaðar. Hann varð aðalritari flotamálaráðuneytisins í valdatíð Karls 2. og Jakobs 2. þótt hann hefði enga reynslu af sjóhernaði. Hann átti stóran þátt í að auka atvinnumennsku innan Konunglega breska sjóhersins.