Manuela Sáenz
Doña Manuela Sáenz y Aizpuru (27. desember 1797 – 23. nóvember 1856) var ekvadorsk byltingarkona og ein af sjálfstæðishetjum Suður-Ameríku. Hún studdi byltingar Suður-Ameríkumanna gegn yfirráðum spænska heimsveldisins í byrjun 19. aldar með því að safna upplýsingum, dreifa út dreifibréfum og leiða baráttu fyrir kvenréttindum.
Doña Manuela Sáenz | |
---|---|
Fædd | 27. desember 1797 |
Dáin | 23. nóvember 1856 (58 ára) |
Störf | Byltingarkona, njósnari |
Trú | Kaþólsk |
Maki | James Thorne (g. 1817 – skilin 1822) Simón Bolívar (1822-1830) |
Foreldrar | Simón Sáenz Vergara og Maria Joaquina Aizpuru |
Undirskrift | |
Sáenz giftist ríkum enskum kaupmanni árið 1817 og varð yfirstéttarkona í Lima, Perú. Þar hóf hún afskipti af stjórn- og hernaðarmálum og hóf að styðja starfsemi byltingarmanna. Hún skildi við eiginmann sinn árið 1822 og hóf ástarsamband við byltingarleiðtogann Simón Bolívar sem entist þar til hann lést árið 1830. Eftir að Sáenz bjargaði lífi Bolívars árið 1828 með því að hjálpa honum að sleppa undan tilræðismönnum gaf Bolívar henni viðurnefnið „Libertadora del libertador“ („frelsari frelsarans“).
Æviágrip
breytaManuela Sáenz kynntist Simón Bolívar þegar hún var 22 ára, á dansleik sem haldinn var honum til heiðurs í Quito eftir sigur hans gegn spænskum stjórnvöldum í Ekvador. Þar hrifust þau hvort að öðru og þegar Bolívar yfirgaf Quito til að halda hernaðarleiðangrum sínum áfram ákvað Sáenz að yfirgefa eiginmann sinn og fara með honum. Sáenz var reyndur knapi og átti því auðvelt með að ferðast með her Bolívars, en eftir ár í fylgd með henni ákvað Bolívar að yfirgefa hana án skýringa.[1]
Eftir stutt sambandsslit sendi Bolívar Manuelu ástarbréf þar sem hann baðst fyrirgefningar. Hún lét til leiðast og fylgdi honum til Bogotá og skildi við eiginmann sinn fyrir fullt og allt.[1]
Í byrjun ársins 1825 og frá febrúar til september árið 1826 bjó Sáenz ásamt Bolívar í grennd við Lima. Þann 25. september árið 1828 reyndu andstæðingar Bolívars í Bogotá að reyna að koma honum fyrir kattarnef á heimili hans þar. Það var Sáenz sem vakti Bolívar, laumaði honum út úr húsinu og tafði síðan tilræðismennina þar til hann var kominn í öruggt skjól. Tilræðismennirnir voru handteknir á næstu dögum og vegna hlutverks Sáenz í að bjarga honum gaf Bolívar henni viðurnefnið „frelsari frelsarans“.
Bolívar var þegar þungt haldinn af berklum þegar tilræðið var gert og hann lifði aðeins tvö ár í viðbót. Eftir að hann lést sagði Sáenz um hann: „Ég elskaði Bolívar lifandi; ég tilbið hann látinn.“ Árið 1834 gerði ríkisstjórn Francisco de Paula Santander Sáenz útlæga frá Kólumbíu. Sáenz sneri heim til Ekvador en fékk ekki að setjast að í Quito því Vicente Rocafuerte forseti landsins lét ógilda vegabréf hennar þegar hún kom til landsins. Hún settist því að endingu að í bænum Paita í norðvesturhluta Perú.[2]
Á seinni æviárum sínum tók Sáenz á móti ýmsum frægum gestum á heimili sitt, meðal annars ítalska byltingarmanninum Giuseppe Garibaldi. Hún lést árið 1856 úr barnaveiki.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „„Meiri heiður að vera frilla Bolivars en eiginkona nokkurs annars manns"“. Vísir. 5. júlí 1980. Sótt 18. júlí 2019.
- ↑ „Consuelo Navarro. Manuela Sáenz en el imaginario contemporáneo de Ecuador“., portal Ecuador, Mi País, archive de 2007; accès 07.08.2011.
- ↑ Miramón, Alberto. La vida ardiente de Manuelita Sáenz. Volume 68 de Biblioteca colombiana de cultura: Colección popular. Institut colombien de Culture, 1973