Sojourner Truth
Sojourner Truth (um 1797 – 1883), var andstæðingur þrælahalds og kvenfrelsiskona sem fæddist í þrældóm í kringum árið 1797 í Ulster sýslu, New York. Henni var gefið nafnið Isabelle, en árið 1843 tók hún upp nafnið Sojourner Truth.
Fyrstu árin
[breyta | breyta frumkóða]Móðurmál Truths var hollenska, þar sem fyrstu eigendur hennar voru af hollenskum ættum. Þegar Truth var fjögurra ára gömul var hún tekin frá foreldrum sínum, sem nýlega höfðu verið frelsaðir þegar eigandi þeirra, Charles Hardenbergh, lést. Eftir það vann Truth á heimilum þriggja mismunandi eigenda. Hún eignaðist fimm börn í þrældómi með Thomas Jeffrey, samþræl sínum. Árið 1826 flúði Truth þrældóm, og skömmu seinna var sonur hennar seldur ólöglega til Alabama. Truth kærði þessa sölu, og fékk son sinn aftur sendan til New York. Árið 1827 bannaði New York fylki þrælahald, og ári seinna flutti hún til New York borgar.
Truth vann sem heimilisþerna í New York borg og var meðlimur ýmissa trúarsafnaða. Truth var undir miklum áhrifum frá trúarkenningum Williams Millers, spámanni sem spáði endurkomu Krists árið 1843. 1. júní það ár fékk Truth vitrun frá hinum heilaga anda, og breytti nafni sínu úr Isabelle í Sojourner Truth, nafn sem merkir ferðaprédikari. Hún lagði af stað fótgangandi til annarra fylkja norðausturhluta Bandaríkjanna, og hélt ræður á fundum meðlima söfnuðs Millers. Í lok ársins, þegar heimsendi hafði ekki átt sér stað, leitaði Truth að nýjum stað til að eyða vetrinum.
Upphaf réttindarbaráttunnar
[breyta | breyta frumkóða]Truth fann sér samanstað í Northampton Association of Education and Industry, hópi sem hafði verið stofnaður árið 1842 af andstæðingum þrælahalds. Meðan hún bjó með þessum hópi, byrjaði Truth að tala opinberlega gegn þrælahaldi. Truth kaus frekar að halda fyrirlestra á eigin vegum heldur en á stórum ráðstefnum gegn þrælahaldi. Hún taldi að þegar hún talaði persónulega um reynslu sína af þrælahaldi myndi hún auka skilning áheyrenda sinna á þrældómi. Á ferðum sínum um norðurríki Bandaríkjanna náði hún oft í áheyrendahópa með því að syngja.
Truth hafði sterka rödd, var óvenjulega hávaxin (180 sm), og hún var talin afar kröftugur ræðumaður. Andstæðingar þrælahalds tóku hana upp á arma sína, og með hjálp eins þeirra, Olive Gilbert, skrifaði Truth ævisögu sína, The Narrative of Sojourner Truth: A Northern Slave, árið 1850.
Árið 1851 hélt Truth frægustu ræðu sína á ráðstefnu kvenfrelsissinna í Akron, Ohio. Þegar áhorfandi á ráðstefnunni hélt því fram að konur væru ekki jafnar karlmönnum því að karlmenn þyrftu að vernda þær og hjálpa þeim, stóð hún upp og sagði að í hennar lífi sem þræll hafi hún aldrei fengið hjálp karlmanna og spurði svo „and ain’t I a woman?“[1]
Kvenfrelsi og afnám þrælahalds
[breyta | breyta frumkóða]Ólíkt flestum baráttumönnum fyrir réttindum blökkumanna, eins og Frederick Douglass og Henry Highland Garnet, taldi Truth að barátta fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum væri óaðskiljanleg frá baráttu fyrir réttindum kvenna.[2] Á ársfundi American Equal Rights Association árið 1867 hélt hún ræðu þar sem hún sagði:
„Það er mikið talað um að blökkumenn fá réttindi sín, en ekkert talað um blökkukonur. Og ef blökkmenn fá réttindi sín, en blökkukonur ekki, þá sjáiði að blökkumenn munu vera meistarar kvennanna, og ástandið verður allt eins slæmt og það er í dag.“[3]
Á sama tíma mótmælti hún kvenréttindakonunni Elizabeth Cady Stanton sem hótaði því að styðja ekki kosningarétt blökkumanna ef kosningaréttur kvenna fylgdi ekki með.[4]
Á ævi sinni hitti Truth og vann með helstu baráttumönnum kvenréttinda og réttindum blökkumanna, meðal annars Susan B. Anthony, Elizabeth Cady Stanton, Harriet Beecher Stowe, Amy Post, Frederick Douglass, William Lloyd Garrison og Abraham Lincoln.
Sojourner Truth dó á heimili sínu í Battle Creek, Michigan þann 26. nóvember 1883, 86 ára gömul.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Fyrirmynd greinarinnar var „Ain't I a Woman?“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. nóvember 2007.
- ↑ Comparisons, Contrasts, Connections
- ↑ Keeping the Thing Going While Things Are Stirring: Address to the first annual meeting of the American Equal Rights Association delivered by Sojourner Truth on May 9, 1867
- ↑ This Far by Faith: Sojourner Truth
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Sojourner Truth“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. nóvember 2007.
- Painter, Nell Irvin. „Truth, Sojourner“. Sótt 8. nóvember 2007.
Sjá einnig
[breyta | breyta frumkóða]- Vefútgáfa af The Narrative of Sojourner Truth
- „Sojourner Truth, The Libyan Sibyl“[óvirkur tengill] eftir Harriet Beecher Stowe