Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Hans Christian Gram

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lífvísindi
19. öld
Nafn: H. C. J. Gram
Fæddur: 13. september 1853 í Kaupmannahöfn
Látinn 14. nóvember 1938 (85 ára)
Svið: Gerlafræði
Markverðar
uppgötvanir:
Gramlitun
Helstu ritverk: [1]
Alma mater: Kaupmannahafnarháskóli
Helstu
vinnustaðir:
Kaupmannahafnarháskóli

Hans Christian Joachim Gram (fæddur 13. september 1853, dáinn 14. nóvember 1938) var danskur örverufræðingur og læknir. Hann er þekktastur fyrir að hafa þróað litunaraðferðina sem við hann er kennd[1] og nýtist til að flokka bakteríur í tvo hópa, Gram- jákvæðar og Gram-neikvæðar bakteríur.

Hans Christian Gram lærði grasafræði og læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi árið 1878. Hann starfaði sem læknir við Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn þar til hann lauk háskólakennaraprófi (habilitation) árið 1883, en að því loknu hélt hann í tveggja ára náms- og rannsóknaferð um Evrópu og lagði stund á lyfjafræði í Strassburg, Marburg og Berlín. Árið 1886 hóf hann störf sem lektor og síðar prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og gegndi því það sem eftir var starfsævinnar, frá 1892 meðfram yfirlæknisstöðu við Rigshospitalet.

Gramlitunin

[breyta | breyta frumkóða]

Í Berlín dvaldi Gram hjá Carl Friedländer og vann þar að rannsóknum á orsakavöldum lungnabólgu. Meðal þeirra verkefna sem Gram glímdi við var að finna leið til að greina lungnabólgusýkla í lungnavefjarsýnum með litunaraðferð þannig að aðeins sýkillinn litaðist en ekki frumur lungnavefjarins. Hann þróaði litunaraðferð þar sem sýnið var litað með crystal violet og síðan meðhöndlað með joðlausn fyrir aflitun með etanóli. Aðferðin reyndist nothæf á sum vefjasýnin, en ekki önnur. Við nánari skoðun komst Gram að því að aðeins sumir lungnabólgusýklar, svo sem „pneumókokkar“ (Streptococcus pneumoniae) héldu fjólubláa litnum, en aðrir, svo sem Klebsiella pneumoniae, aflituðust líkt og vefjarfrumurnar. Hann birti niðurstöður sínar, þó hann teldi aðferð sína „ófullkomna“.[1] Örverufræðingar, svo sem Émile Roux, voru þó fljótir að átta sig á notagildi aðferðarinnar við að greina í sundur ólíkar bakteríugerðir og fáeinum árum síkðar greindi þýski meinafræðingurinn Carl Weigert frá endurbættri aðferð þar sem aflitaða sýnið var endurlitað með safraníni, en við það má lita bæði Gram-jákvæðar (sem halda fjólubláa crystal violet litnum) og Gram-neikvæðar (taka rauða safranín litinn) bakteríur í sama sýninu.

  1. 1,0 1,1 1,2 H. C. J. Gram (1884). Über die isolierte Färbung der Schizomyceten in Schnitt- und Trockenpräparaten. Fortschritte der Medizin 2, 135-139.


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.