Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Klemens von Metternich

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Klemens von Metternich
Mynd af Metternich (1815) eftir Sir Thomas Lawrence.
Ríkiskanslari austurríska keisaradæmisins
Í embætti
25. maí 1821 – 13. mars 1848
ÞjóðhöfðingiFrans 1.
Ferdinand 1.
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurFranz Anton (sem forsætisráðherra)
Utanríkisráðherra austurríska keisaradæmisins
Í embætti
8. október 1809 – 13. mars 1848
ÞjóðhöfðingiFrans 1.
Ferdinand 1.
ForveriJohann Philipp von Stadion
EftirmaðurKarl Ludwig von Ficquelmont
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. maí 1773
Koblenz, kjörfurstadæminu Trier, Heilaga rómverska ríkinu
Látinn11. júní 1859 (86 ára) Vín, austurríska keisaradæminu
ÞjóðerniAusturrískur
MakiEleonore von Kaunitz (g. 1795–1825)
Antoinette Leykam (g. 1827–1829)
Melanie Zichy-Ferraris (g. 1831–1854)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn15
HáskóliStrassborgarháskóli
Háskólinn í Mainz
StarfErindreki, stjórnmálamaður

Klemens Wenzel Nepomuk Lothar, fursti af Metternich-Winneburg zu Beilstein (15. maí 1773 – 11. júní 1859[1]) var þýskur stjórnmálamaður og ríkiserindreki sem var utanríkisráðherra austurríska keisaradæmisins frá 1809 og kanslari frá 1821 þar til hann neyddist til að segja af sér í kjölfar byltinga ársins 1848.

Eitt fyrsta verkefni hans sem utanríkisráðherra var að semja um vopnahlé við Frakka gegn því að María Lovísa erkihertogaynja yrði gift Napóleon Bónaparte. Stuttu síðar stóð hann fyrir því að Austurríki gekk inn í sjötta bandalagsstríðið með bandamönnum gegn Frakklandi, undirritaði Fontainbleau-sáttmálann sem neyddi Napóleon í útlegð og gerðist fulltrúi Austurríkismanna á Vínarfundinum þar sem Evrópu var skipt milli sigurvegara Napóleonsstyrjaldanna. Fyrir þjónustu sína í þágu austurríska keisaradæmisins fékk Metternich furstatign í október 1813. Undir leiðsögn hans gekk Austurríki í bandalag við Rússland og, í minni mæli, Prússland. „Metternich-kerfið“, þar sem alþjóðafundir á borð við Vínarfundinn voru haldnir reglulega, var sett á fót. Þetta var hápunktur austurrískra áhrifa á alþjóðasviðinu en áhrif Metternich döluðu smám saman eftir þetta. Heima við var Metternich ríkiskanslari frá 1821 til 1848 á valdatíðum Frans 1. og Ferdinands 1. keisara. Eftir stutta útlegð til London, Brighton og Brussel sneri Metternich aftur til hirðarinnar í Vín árið 1851 og gerðist ráðgjafi Frans Jósefs keisara. Metternich hafði þá lifað lengur en flestir aðrir stjórnmálamenn sinnar kynslóðar og lést árið 1859, þá 86 ára.

Metternich hefur bæði verið gagnrýndur og lofsamaður fyrir stefnumál sín. Aðdáendur hans benda á að hann hafi verið við stjórn „evrópsku hljómkviðunnar“ þar sem alþjóðasamskipti komu í veg fyrir meiriháttar stríð í Evrópu.[2] Bent er á hæfileika hans sem ríkiserindreka og á hve miklu hann náði fram þrátt fyrir lélega samningsstöðu. Gagnrýnendur Metternich líta frekar á hann sem þrjóskan afturhaldssegg sem hafi ríghaldið í illa ígrundaða íhaldsstefnu vegna hégómleika síns og oflætis.[3] Hann hafi ekki gert nóg til að tryggja framtíð Austurríkis og andóf hans gegn þýskri þjóðernishyggju hafi leitt til þess að Þýskaland sameinaðist að endingu í kringum Prússland en ekki Austurríki. Aðrir sagnfræðingar hafa bent á að hann hafi ekki haft svo mikil völd og að hann hafi aðeins getað komið sínum stefnumálum í framkvæmd þegar þau geðjuðust einveldi Habsborgara.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Palmer, Alan (1972). Metternich: Councillor of Europe (1997 reprint ed.). London. Bls. 339
  2. Okey, Robin (2001). The Habsburg monarchy, c. 1765–1918. Macmillan, bls. 75–76.
  3. Sked, Alan (1983). "Metternich". History Today. 33 (6). Bls. 43.