Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Eyrarsundstollurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krúnuborgarhöll við Helsingjaeyri

Eyrarsundstollurinn var tollur sem Danir innheimtu af skipum sem fóru um Eyrarsund, milli Norðursjávar og Eystrasalts, yfir línu sem lá á milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar. Tollinum var komið á af Eiríki af Pommern árið 1429 til höfuðs Hansakaupmönnum. Öll erlend skip þurftu að bíða við Helsingjaeyri eftir að greiða tollinn og þar var reist virkið Krókurinn sem síðar vék fyrir Krúnuborgarhöll. Svíar voru að mestu leyti undanþegnir tollinum, en þó voru vissir vöruflokkar tollaðir og Svíar reyndu t.d. í Torstensonófriðnum að losa um þessi verslunarhöft. Tollurinn var ein helsta og stöðugasta tekjulind Danakonunga og ein af ástæðum þess að konungsvaldið styrktist verulega í Danmörku á 16. og 17. öld. Tekjurnar af tollinum voru nýttar til ýmissa stórframkvæmda á vegum konungs, svo sem kastalabygginga.

Tollurinn var afnuminn með Eyrarsundssamningnum 14. mars 1857 vegna mikils þrýstings erlendra ríkja og þá einungis gegn 30 milljón ríkisdala bótum sem þessi ríki (þar á meðal Rússland, Bandaríkin og Tyrkland) þurftu að greiða Dönum.

Ætla má að William Shakespeare hafi heyrt um Helsingjaeyri frá enskum sjómönnum sem höfðu þurft að bíða þar eftir tollinum, og þannig fengið hugmyndina að því að láta Hamlet gerast í höllinni „Elsinore“.