Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

GMDSS

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alþjóðlegt neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó eða GMDSS (úr ensku: Global Maritime Distress and Safety System) er alþjóðleg samþykkt um öryggisferla, tækjabúnað og samskiptastaðla sem nota skal til að tryggja öryggi skipa á sjó og gera björgunaraðilum auðveldara fyrir að koma skipum til aðstoðar. Kröfur um GMDSS voru teknar upp í Alþjóðasamning um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) árið 1988.

GMDSS nær yfir nokkur neyðarkerfi sem sum hafa verið í notkun áratugum saman meðan önnur eru ný af nálinni. Kerfinu er ætlað að gera eftirfarandi aðgerðir mögulegar: útsendingu neyðarkalls (með staðarákvörðun), samhæfingu björgunaraðgerða, útsendingu sjóviðvarana, almenn samskipti og samskipti milli skipa. Kröfur um drægni fjarskiptatækja fara eftir farsviði skipa fremur en stærð þeirra. Kerfið gerir líka kröfu um fleiri en eina óháða leið til að senda út neyðarkall og varaaflgjafa til að nota í neyð.

Skemmtibátar þurfa ekki að uppfylla kröfur GMDSS um drægni fjarskiptabúnaðar en VHF-talstöðvar til notkunar á sjó eru í auknum mæli með búnað fyrir stafrænt valkall (DSC).

GMDSS-kerfið gerir ráð fyrir nokkrum gerðum skírteina fjarskiptamanna sem gefin eru út af yfirvöldum í hverju landi fyrir sig. Á strandsvæðum (innan færis við að minnsta kosti eina VHF-landstöð sem tekur við DSC-boðum), eða A1-hafsvæðum, er takmarkað fjarskiptaleyfi (ROC) nægjanlegt, en utan þess þarf almennt fjarskiptaleyfi (GOC) á öllum skipum sem falla undir SOLAS-samþykktina.

Fyrir skip sem ekki falla undir SOLAS-samþykktina eru gefin út skammdræg fjarskiptaleyfi fyrir A1-hafsvæði og langdræg leyfi þar fyrir utan. Auk þess er hægt að gefa út skírteini fyrir fjarskiptamann sem takmarkast við notkun stafræns valkalls á VHF-tíðni, sem er þannig líka takmarkað við A1-hafsvæði.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.