Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Steinn Jónsson (30. ágúst 16603. desember 1739) var biskup á Hólum frá 1711 til dauðadags, 1739, eða í rúm 28 ár.

Foreldrar Steins voru Jón Þorgeirsson (um 1597–1674) prestur og skáld á Hjaltabakka við Blönduós, og kona hans Guðrún Steingrímsdóttir (um 1623–1690).

Steinn Jónsson fæddist á Hjaltabakka og ólst þar upp. Hann var tekinn í Hólaskóla 1678 og varð stúdent þaðan 1683. Var síðan í þjónustu Solveigar Magnúsdóttur að Hólum í Eyjafirði. Fór utan 1686, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið og lauk prófi í guðfræði vorið 1688. Kom heim um sumarið og varð fyrst afleysingaprestur í Hítardal, síðan dómkirkjuprestur í Skálholti 1692; fékk Hítarnes 1693 og Setberg á Snæfellsnesi 1699.

Haustið 1710 var Steinn kvaddur til Kaupmannahafnar til þess að taka við Hólabiskupsdæmi og var vígður Hólabiskup vorið 1711. Hann kom til landsins samsumars, var á Setbergi um veturinn, tók við Hólastól vorið 1712 og var biskup til æviloka, 1739. Páll Eggert Ólason segir um Stein: "Var vel gefinn maður og skáldmæltur, einnig á latínu ..., valmenni en eigi skörungur mikill. Mikill vexti og rammur að afli."

Um 70 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Steins Jónssonar. Mesta stórvirkið var Steinsbiblía, þriðja útgáfa biblíunnar á íslensku, prentuð á árunum 1728–1734. Af öðrum ritum má nefna frumútgáfu Vídalínspostillu, sem kom út í tveimur bindum 1718 og 1720.

Steinn frumsamdi tvær bækur: Dægrastytting (Hólum 1719, 1727 og 1757), Upprisusálmar (Hólum 1726 og oft síðar), og átti hlut í fleiri bókum. Hann þýddi þrjár bækur eftir Johann Lassenius: Anthropologia sacra (Hólum 1716), Tvennar sjö sinnum sjö hugvekjur (Hólum 1727), og Guðrækilegar vikubænir (Hólum 1728). Einnig Rachlöv: Tárapressa (Hólum 1719), Obarius: Mánaðasöngur (Hólum 1727), o.fl.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar prestastefnubók, vísitasíubók og óheil bréfabók úr embættistíð Steins Jónssonar.

Í Hóladómkirkju var málverk af Steini Jónssyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum. Legsteinn Steins biskups er sá stærsti í Hóladómkirkju.

Kona Steins Jónssonar (gift 1694) var Valgerður Jónsdóttir (f. 1668, d. 12. febrúar 1751), dóttir séra Jóns Guðmundssonar á Staðarhrauni. Frú Valgerður var ólík manni sínum, stórlynd, örorð og óstillt í framgöngu.

Börn þeirra sem upp komust: Jón Steinsson Bergmann (f. um 1696, d. 1719) læknir og skáld, Guðmundur Steinsson Bergmann (f. um 1698, d. 1723) skólameistari á Hólum, Jórunn Steinsdóttir (f. um 1699, d. 1775) átti fyrst Hannes Scheving sýslumann á Urðum í Svarfaðardal og Munkaþverá í Eyjafirði, síðar Stefán Einarsson prest í Laufási, Helga Steinsdóttir (f._um 1705, d. 1750) átti m.a. Einar Jónsson ráðsmann á Hólum, bjuggu seinast í Viðvík, Sigfús Steinsson Bergmann (f. um 1709, d. 1723). Bræðurnir tóku upp ættarnafnið Bergmann eftir Setbergi. Þeir dóu allir sviplega, Jón féll fyrir eigin hendi en þeir Guðmundur og Sigfús drukknuðu úti fyrir Reykjaströnd. Af dætrum Steins eru miklar ættir komnar.

Heimildir

breyta
  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár IV.
  • Ragnar Fjalar Lárusson: Skrá um Hólaprent, í handriti.
  • Sigurjón Páll Ísaksson: Um Legsteina í Hóladómkirkju. Skagfirðingabók 21.
  • Íslendingabók (á netinu).



Fyrirrennari:
Björn Þorleifsson
Hólabiskup
(17111739)
Eftirmaður:
Ludvig Harboe