Kim Jong-il
Kim Jong-il (16. febrúar 1941 – 17. desember 2011) var leiðtogi Norður-Kóreu árin 1994 til 2011. Hann tók við af föður sínum Kim Il-sung, sem hafði þá stjórnað landinu síðan 1948. Hann var þekktur í Norður-Kóreu sem „leiðtoginn kæri“ (친애하는 지도자, ch'inaehanŭn chidoja).
Kim Jong-il | |
---|---|
김정일 | |
Æðsti leiðtogi Norður-Kóreu | |
Í embætti 8. október 1994 – 17. desember 2011 | |
Forveri | Kim Il-sung |
Eftirmaður | Kim Jong-un |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 16. febrúar 1941 Prímorja, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Látinn | 17. desember 2011 (70 ára) Pjongjang, Norður-Kóreu |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkur Kóreu |
Maki | Hong Il-chon (1966–1969); Kim Young-sook (1974–2011) |
Börn | Kim Jong-nam, Kim Sul-song, Kim Jong-chul, Kim Jong-un, Kim Yo-jong |
Foreldrar | Kim Il-sung og Kim Jong-suk |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Hann var æðsti yfirmaður herafla landsins og aðalritari í Verkamannaflokki Kóreu, eina leyfilega flokki landsins. Fæðingardagur hans er helsti hátíðardagurinn í Norður-Kóreu ásamt fæðingardegi föður hans.
Æviágrip
breytaKim Jong-il var einræðisherra Norður-Kóreu á árunum 1994-2007. Hann stjórnaði með harðri hendi líkt og faðir sinn. Ekki er nákvæmlega vitað um fæðingardag hans, kóreskar upplýsingar segja til um að hann hafi fæðst 1942 en sovéskar heimildir segja hann hafa fæðst árið 1941. Sögur segja að hann hafi fæðst hátt uppi á fjalli og við fæðingu hans hafi komið tvöfaldur regnbogi og ný stjarna hafi birst á himnum. Kim átti að hafa getað stjórnað veðrinu, ekki er vitað hvað er satt og hvað eru ýkjur eða bara hreinn uppspuni. Kim-ættin hefur verið við völd í N-Kóreu og íbúar N-Kóreu eiga að líka mjög vel við Kim-ættina, í raun er bannað með lögum að tala neikvætt um þá. Utanaðkomandi aðilar telja þó líklegt að sú ást sé hvött áfram af hræðslu frekar en hreinni ást. Umdeilt er hvort Norður-Kórea eigi kjarnorkuvopn en samkvæmt upplýsingum sem gefnar hafa verið út af Norður-Kóreu hefur Norður-Kórea prófað kjarnorkuvopn neðanjarðar með góðum niðurstöðum. Þrátt fyrir afskipti Bandaríkjanna hafa þeir haldið rannsóknum sínum áfram og eru að því enn. Kim Jong-il var einnig þekktur fyrir að lifa mjög góðu lífi, borðar humar, kavíar og fínasta sushi alla daga og skolar því niður með rándýru koníaki. Mikla unun hefur hann á kvikmyndum og bílum og hefur hann reynt umfangsmiklar tilraunir til þess að stofna kvikmyndaiðnað í Norður Kóreu. Kim Jong-Il lést þó árið 2011 vegna hjartáfalls, sagt var að hann hafi unnið of mikið. Nú hefur sonur hans Kim Jong-un tekið við og hefur stjórnað í líkingu við föður sinn og afa.
Fjölskyldan og fyrstu árin.
breytaEkki er nákvæmlega vitað hvenær Jong-il fæddist. Heimildir frá Sovétríkjunum segja að hann hafi fæðst 16. febrúar 1941. Opinberar heimildir Norður-Kóreu segja að hann hafi fæðst 16. febrúar 1942 í leynilegum tjaldbúðum á landamærum Kína. Sögur segja frá því að tvöfaldur regnbogi hafi birst á himnum og ný stjarna hefði einnig birst á sama tíma og hann fæddist.[1]
Í gagnfræðaskóla sýndi hann áhuga á fjölmörgum sviðum til dæmis tónlist, vélfræði og landbúnaði. Hann fór í vísindaferðir meðal annars á bóndabæi og fleira. Kim sýndi snemma að hann hafði áhuga á stjórnmálum og sýndi einnig fram á hæfileika sýna til að stjórna með því að vera varaformaður í Félagi ungra demókrata.
Jong-il útskrifaðist úr Namsan-grunnskólanum árið 1960 og fór beinustu leið í Kim Il-sung-háskólann. Þar lærði hann marxísk-pólitíska efnahagsfræði sem aðalfag, með því tók hann einnig heimspeki og hernaðarleg vísindi en einnig fór hann með föður sínum í ferðir um Norður-Kóreu sem ráðgjafi og lærlingur.[2]
Leiðin á toppinn
breytaÁrið 1961 varð Kim aðili að Verkamannaflokknum sem var þá stærsti stjórnmálaflokkur í Norður Kóreu. Strax eftir útskrift árið 1964 fór Jong-il að vinna sig upp metorðastigann hjá flokknum.
Á þessum árum var Norður-Kórea að reyna færa sig frá áhrifum stórra kommúnistavelda líkt og Kína og Sóvétríkin. Jong-il var valinn af flokknum til að leiða sókn gegn áhrifum þeirra og gera hvað hann gæti til þess halda í gömlu viðmiðin sem flokkurinn stóð fyrir. [3]
Hann styrkti hernaðartengsl flokksins og rak herforingja sem voru ekki nógu hliðhollir flokknum. Hann tók einnig yfir stór fjölmiðlafyrirtæki og gaf skýr fyrirmæli um að allir rithöfundar, listamenn og opinberir aðilar skyldu koma þeim áróðri til skila sem flokkurinn vildi.[4]
Kim Il-sung, faðir Jong-il var byrjaður að þjálfa son sinn til þess að verða hæfur stjórnandi. Hann byrjaði að þjálfa hann árin 1970 – 1980 á meðan var Kim að verða sífellt mikilvægari í Verkamannaflokknum. 1980 var svo farið að vinna að því að Kim myndi taka við af föður sínum sem leiðtogi Norður-Kóreu.[5]
Hörð stjórnun
breytaTvö atvik áttu sér stað á 9. áratugnum sem sýndi hvernig Jong-il ætlaði að stjórna með harðri hendi. Það var þegar hann fyrirskipaði skotárás á farþegaþotu sem olli því að allir 115 um borð létu lífið. Hitt atvikið var þegar Kim hélt að stjórnmálamenn væru að hittast til að mynda stjórnarandstöðu þá lét hann sprengja húsið í loft upp sem varð sautján stjórnmálamönnum að bana. [6]
Eilífur forseti
breyta8. júlí 1994 lést Kim Il-sung vegna hjartaáfalls, 82 ára gamall. Hann fékk titilinn „Eilífur forseti“. Af völdum þessa titils varð Kim Jong Il ekki forseti Norður-Kóreu heldur „leiðtogi“ þeirra.[7]
Erfiðir tímar
breytaÁrin 1990 – 2000 voru erfiðir tímar í Norður-Kóreu. Norður-Kórea var undanfarin ár búin að versla mikið við Sovétríkin en við fall Sovétríkjanna 1991 missti Norður-Kórea verslun sína við Sovétríkin. Erfið sambönd við Kína og Suður-Kóreu. Flóð 1995, 1996 og svo þurrkur 1997 lamaði alla matarframleiðslu. Í besta falli var 18% af landinu sem hægt var að nýta til ræktunar. Við þessar aðstæður varð mikið hungur, Jong-il varð hræddur um að missa völd sín og setti á lög um að herinn hefði forgang á mat. Þannig hafði hann herinn með sér á móti óvinum sínum. Stórar sendingar af mat voru sendar frá Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum en þegar sendingarnar komu hafði fólk þegar látist, tölur eru þó mikið á reiki en allt frá 200 þúsund til 3,5 milljónir manna létu lífið vegna hungurs.[8]
Kjarnorkuvopn
breyta1994 gerðu Bandaríkin og Norður-Kórea samning um að Norður-Kórea myndi stöðva þróun á kjarnorkuvopnum ef byggt yrði fyrir þá tvö kjarnorkuver til að framleiða rafmagn.[9] Fleiri samningar voru gerðir á næstu árum. Árið 1999 sömdu Bandaríkin og Norður-Kórea um að Norður-Kórea myndi hætta tilraunum með langdrægar eldflaugar ef Bandaríkin myndu aflétta viðskiptabanni sínu á þeim. Árið 2002 hittust svo Kim Jong-Il og leiðtogi Suður-Kóreu, Kim Dae-Jung, var það í fyrsta skipti sem þeir hittust. Þar var ákveðið að ganga ákveðin skref í átt að sameiningu.[10]
Svo árið 2002 sagði forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, að Norður-Kórea væri ekki að virða samning þeirra og væru á laun að auðga úran. Bush líkti einnig Kim og stjórnun hans við illsku. Þetta hafði ekki góð áhrif á samband Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Ári seinna lýsti Kim Jong-Il svo yfir að Norður-Kórea væri farin að rannsaka og reyna að framleiða kjarnorkusprengjur. Svo árið 2006 var gefið út að Norður-Kórea hefði gert tilraun með kjarnorkusprengjur neðanjarðar sem á að hafa heppnast vel.[11][12]
Eyðslusemi
breytaKim Jong-il var þekktur fyrir að gera mjög vel við sig. Kim flutti inn $700 þúsund virði af Hennessy koníakí á hverju ári. Hann borðaði humar, kavíar, einungis fínasta sushi og elskaði að horfa á Hollywood-myndir. Rambo og Friday the 13th voru meðal uppáhaldsmynda hans. Kim elskaði einnig Benz-bifreiðir og átti flota af bifreiðum. Kim hafði mikinn áhuga á kvikmyndum, sagður eiga meira en 20 þúsund kvikmyndir og gekk svo langt árið 1978 að hann lét ræna frægum leikstjóra og konu hans frá Suður-Kóreu og flytja hann til Norður-Kóreu með það í huga að reyna að efla kvikmyndaiðnað í Norður-Kóreu.[13]
Persónuleiki og stjórnun
breytaJong-il náði að halda einkalífi sínu frekar leyndu, orðrómur var um það að hann hefði gift sig áður og átt börn. Elsti sonur hans og erfingi hans var opinberlega niðurlægður þegar hann var handtekinn í Disney-landi í Tokyo með falsað vegabréf og við það missti hann arf sinn. Þá var bróðir hans næstur í röðinni, Kim Jong-un. Eins og góður einræðisherra eru myndir af Kim Jong-Il og föður hans út um allt. Meinyrði gagnvart Kim mönnum er refsivert. Lofsöngvar eru stanslaust í útvarpinu og allir fjölmiðlar eru í eigu ríkisins svo þeir geta ekki miðlað neinu sem á ekki að komast í loftið, einnig eru afmælisdagar þeirra feðga miklir hátíðardagar í landinu. Þó segja utanaðkomandi aðilar að ástin sem einræðisherrunum er gefin af fólkinu sé drifin áfram meira af ótta en ást.[14][15]
Dvínandi heilsa
breytaOpinberar upplýsingar segja Jong-il hafa átt þrjár eiginkonur, þrjá syni og þrjár dætur þó segja aðrar heimildir um að hann hafi átt hátt í 70 börn. Jong-il lést svo á leið sinni þvert yfir landið þann 17. desember 2011. Ekki leið langur tími þar sem Norður-Kórea var leiðtogalaust en nánast um leið og Jong-il lést var þriðji sonur hans Kim Jong-un gerður æðsti ræðismaður og einræðisherra Norður-Kóreu.
Tilvísanir
breyta- ↑ Encyclopædia Britannica.
- ↑ Biography, people, kim jong-il
- ↑ Biography, people, kim jong-il
- ↑ Asian History, Kallie Szczepanski
- ↑ Biography, people, kim jong-il
- ↑ Asian History, Kallie Szczepanski
- ↑ Asian History, Kallie Szczepanski
- ↑ Biography, people, kim jong-il
- ↑ Encyclopædia Britannica Online
- ↑ Encyclopedia Britannica Online
- ↑ Encyclopedia Britannica Online
- ↑ Asian History, Kallie Szczepanski
- ↑ Biography, people, kim jong-il
- ↑ Encyclopedia Britannica Online
- ↑ Asian History, Kallie Szczepanski
Heimildir
breyta- BBC news, asia pacific, kim jong-il, (skoðað 21. mars 2012)
- Biography, people, kim jong-il, (skoðað 21. mars 2012)
- Encyclopædia Britannica Online, s. v. "Kim Jong Il," (skoðað 21. mars 2012)
- Kallie Szczepanski, Asian History, asian leaders, Kim Jong-Il Geymt 23 júlí 2008 í Wayback Machine, (skoðað 21. mars 2012)
Fyrirrennari: Kim Il-sung |
|
Eftirmaður: Kim Jong-un |