1601-1610
áratugur
1601-1610 var fyrsti áratugur 17. aldar sem er hluti af árnýöld í sögu Evrópu. Á þessum árum kom barokkið upp í evrópskri myndlist, með fyrstu verkum Peter Paul Rubens, og byggingarlist með framhlið Kirkju heilagrar Súsönnu í Róm eftir Carlo Maderno sem var lokið við árið 1603.
Árþúsund: | 2. árþúsundið |
Öld: | 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin |
Áratugir: | 1581–1590 · 1591–1600 · 1601–1610 · 1611–1620 · 1621–1630 |
Ár: | 1601 · 1602 · 1603 · 1604 · 1605 · 1606 · 1607 · 1608 · 1609 · 1610 |
Flokkar: | Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður |
Á þessum árum hófst framleiðsla á sjónaukum og stjörnufræðingar á borð við Galileo Galilei notuðu þessi nýju tæki til að sýna fram á sólmiðjukenninguna.
Helstu atburðir
breyta- Einokunarverslun var komið á á Íslandi þar sem eingöngu borgarar frá Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri höfðu leyfi konungs til að stunda verslun. Þetta fyrirkomulag leiddi til átaka milli kaupmanna og Íslendinga sums staðar og verslun við Englendinga og Þjóðverja var áfram mikil.
- Elísabet 1. lagði Írland endanlega undir enska konungdæmið með sigri í umsátrinu um Kinsale. Elísabetartímabilinu í sögu Englands lauk síðan þegar Elísabet lést 1603 og Jakob 1. tók við. Hann sameinaði fyrstur England, Írland og Skotland undir einn konung. Ýmsar tilraunir kaþólskra Englendinga til að ráða hann af dögum voru gerðar fyrst eftir valdatöku hans, s.s. Samsæri Watsons, Maine-samsærið og Púðursamsærið sem enn er minnst á Guy Fawkes-nótt.
- Tímabilið frá um 1600 til 1608 er kallað „harmleikjatímabilið“ hjá William Shakespeare þegar hann samdi meðal annars harmleikina Óþelló, Lér konungur og Makbeð. Á sama tíma var ný grein sviðslista, ópera, að ryðja sér til rúms á Ítalíu og Claudio Monteverdi samdi elstu óperuna sem enn er reglulega sett upp, Orfeus, árið 1607.
- Jedótímabilið hófst í sögu Japans þegar Tokugawa Ieyasu varð sjógun 1603. Það stóð til 1868.
- Englendingar og Frakkar stofnuðu landnemabyggðir í Norður-Ameríku: í Virginíu og Quebec. Henry Hudson kannaði norðurslóðir og norðausturströnd Norður-Ameríku í leit að norðausturleiðinni til Kína.
- Stórveldistími Svíþjóðar hófst þegar þeir reyndu að leggja undir sig Eystrasaltslöndin undir stjórn Karls hertoga. Sigmundur 3. Vasa, konungur Pólsk-litháíska samveldisins var hindraður í því að taka við sænsku krúnunni þegar stéttaþingin samþykktu að gera mótmælendatrú að ríkistrú.
- Í Rússlandi stóðu rósturtímarnir frá 1599 þar til Rómanovættin tók við völdum 1613. 1601 til 1603 geisaði versta hungursneyð í sögu Rússlands og er áætlað að allt að þriðjungur íbúanna hafi látist. 1606 hóf Ívan Bolotnikov bændauppreisn gegn Vasilíj Sjúiskíj, keisara, sem var barin niður ári síðar.
- Framleiðsla hófst á kíkjum og Galileo Galilei notaði einn slíkan til að afsanna jarðmiðjukenninguna byggt á athugunum sínum 1609 og 1610.