Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Veik beyging

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Veikar sagnir)

Veik beyging (skammstafað sem v.b.) er hugtak í málfræði.

Veik beyging í íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, útskýrið veikar sagnir þannig:

Veikar eru þær sagnir kallaðar sem eru fleirkvæðar í þátíð. Þær greinast í fjóra flokka. Í hinum fyrsta er þær sem enda á -a í nútíð og -aði í þátíð. Dæmi: kalla, flokka, svara. Í öðrum flokki er það einkenni skýrast, að nútíð eintölu er endingarlaus, nafnhátturinn endar á -ja, og þetta j í endingunni hefur valdið hljóðvarpi. Þess hljóðvarps gætir þá ekki í þátíð, þar sem ekkert var j-ið. Dæmi: gleðja, flytja, æja (áði, áð). [...] Í þriðja flokki veikra sagna endar nútíðin á -i og hljóðvarps gætir í kennimyndunum. Dæmi: dæma, sbr. dómur, hnýta, sbr. hnútur og eyða, sbr. auður. Fleiri teljast að vísu til þessa flokks en þær sem falla að öllu undir lýsinguna hér að framan. Þá er að lokum fjórði flokkurinn (fáar sagnir), og þar endar nútíðin einnig á -i, en hljóðvarps verður ekki vart í kennimyndunum né nútíð, því að það -i sem nútíðin endar á, var orðið til úr e og olli því ekki hljóðvarpi. Dæmi af fjórða flokki eru duga, horfa, brosa og hafa...
 
Gísli Jónsson, íslenskufræðingur[1]

Veik beyging sagna

[breyta | breyta frumkóða]

Sagnorð hafa ýmist veika eða sterka beygingu. Veikar sagnir (skammstafað sem v.s.) hafa tannhljóðsviðskeyti sem endingu (-aði, -ði, -di eða -ti) í þátíð eintölu 1. persónu (t.d. ég elskaði, ég sagði, ég faldi, ég atti).[2] Flest sagnorð í íslensku hafa veika beygingu:

  • Dagurinn byrjaði vel.
  • Ég keyrði börnin í skólann.
  • Ég lamdi hann óvart þegar hann gekk inn.
  • Hann veit hvort ég sótti bókina.

á meðan sterkar sagnir eru endingarlausar í þátíð 1. persónu eintölu:

  • Ég svaf frameftir.
  • Ég leit upp í tréið.

Kennimyndir veikra sagna er eftirfarandi:

Fyrsta kennimynd Önnur kennimynd Þriðja kennimynd
nafnháttur fyrsta persóna eintala þátíð framsöguháttur lýsingarháttur þátíðar
borða ég borðaði ég hef borðað
elska ég elskaði ég hef elskað

Veik beyging lýsingarorða

[breyta | breyta frumkóða]

Lýsingarorð sem er veikbeygt endar á sérhljóði í öllum föllum, bæði í eintölu og fleirtölu og standa oftast með nafnorði með ákveðnum greini. Hins vegar hafa lýsingarorð sem standa með nafnorðum án greinis oftast sterka beygingu.:

  • Skemmtilega konan. (veik beyging)
  • Skemmtileg kona. (sterk beyging)
  • Fagri skógurinn. (veik beyging)
  • Fagur skógur. (sterk beyging)
  • Ég þekki fallega manninn. (veik beyging)
  • Ég þekki fallegan mann. (sterk beyging)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1983
  2. Hugtakaskýringar - Málfræði