Nothing Special   »   [go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Maóismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Maó Zedong

Maóismi er pólitísk og fræðileg stefna sem er kennd við Maó Zedong (1893-1976) og þykir einkenna fræðistörf hans, stjórnmálabaráttu og stjórnartíð í Kína. Maóismi er ein grein sósíalisma og kommúnisma og þegar maóistar kalla sig ekki kommúnista, kalla þeir sig oftast marx-lenínista og líta svo á að Maó hafi byggt á kenningum Marx, Engels, Leníns og Stalíns en þróað þær áfram og upp á nýtt og hærra stig. Því eru aðrir sósíalistar ekki sammála, og er hörð (og gagnkvæm) gagnrýni milli maóista og stalínista, trotskíista og fleiri fylkinga.

Það sem aðgreinir maóisma frá öðrum kvíslum kommúnismans er meðal annars mun meiri trú og áhersla á byltingarsinnað hlutverk smábænda og annarra vinnandi stétta til sveita, kenningin um stöðugar mótsetningar (öfugt við hefðbundna díalektík sem aðrir marxistar aðhyllast) og kenningin um heimana þrjá. Flestir aðrir kommúnistar hafna þessum hugmyndum. Auk þeirra einkennast maóískir stjórnarhættir gjarnan af mikilli leiðtogadýrkun, lítilli virðingu fyrir mannréttindum, stjórnarandstöðu eða hugmyndum í andstöðu við hugmyndir stjórnarinnar. Þar við bætast flokkseinræði og náin tengsl stjórnvalda og verkalýðshreyfingar.

Formleg vinslit urðu milli Maós og Sovétmanna eftir að Níkíta Khrústsjov flutti leyniræðuna um Stalín árið 1956. Sá pólitíski ágreiningur, sem stundum nálgaðist bein átök, varð líka til þess að kenningarnar þróuðust hvor í sína átt: Maóismi þróaðist frá því að vera einfaldlega „sósíalismi að hætti Kínverja“ yfir í að verða sjálfstæð undirtegund sósíalisma, á meðan Sovétstjórnin hvarf meira og meira frá stalínískum stjórnarháttum.

Maóismi í dag

[breyta | breyta frumkóða]
Þorp undir stjórn maóista í Nepal

Í Alþýðulýðveldinu Kína hefur opinber leiðtogadýrkun á Maó farið mjög minnkandi frá því hann dó. Stjórnvöld segjast þó enn fara eftir stefnunni sem hann mótaði, þótt deilt sé um efndirnar. Svipað á við í Víetnam, þar sem ríkjandi flokkur sótti upphaflega mikið til Maós en hefur horfið frá stefnu hans. Í Norður-Kóreu er Juche hin ríkjandi hugmyndafræði, og sækir töluvert mikið í smiðju Maós líka. Í mörgum löndum, einkum í Mið- og Suður-Asíu, eru starfandi stjórnmála- og skæruliðahreyfingar sem margar kenna sig við Maó. Sumar þeirra kalla sig beinlínist maóista, öfugt við það sem maóistar hafa gert lengst af. Sem dæmi um þetta má nefna Kommúnistaflokk Nepals (maóista), sem eru mjög umsvifamiklir þar í landi, og Kommúnistaflokk Indlands (maóista), sem hafa barist í áratugi og vinna smám saman á. Utan Asíu starfa margar maóískar hreyfingar, flestar litlar, en í Perú urðu maóískir skæruliðar mjög sterkir og komust nærri því að taka öll völd í landinu í uppreisn sem hófst árið 1980. Þegar stjórnvöld höfðu hendur í hári Abimaels Guzmán formanns, þá brast samstaðan. Að nafninu til stendur uppreisnin enn, en hreyfingin er klofin og fylkingarnar tvær litlar.

Maóismi á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Í vinstri-róttæknibylgjunni sem hófst í lok sjöunda áratugarins á Vesturlöndum og náði til Íslands í upphafi þess áttunda, náðu maóískar hugmyndir nokkru fylgi meðal róttækra Íslendinga. Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) -- yfirleitt kölluð EIK (m-l) -- voru stærsta hreyfingin. Þau voru lögð niður nálægt upphafi níunda áratugarins.